Markmið og hlutverk Kjarks endurhæfingar

Kjarkur endurhæfing er endurhæfingarúrræði sem tekur á móti einstaklingum á aldrinum 18-67 ára sem hafa lokið frumendurhæfingu en þurfa áframhaldandi aðstoð við að aðlagast breyttum aðstæðum og færni.

Kjarkur endurhæfing hefur starfað í 50 ár og hét áður Sjálfsbjargarheimilið. Í júní 2023 var nafninu breytt þegar haldið var upp á 50 ára starfsafmæli. Tilgangur nafnabreytingarinnar var að fá nafn sem fangaði betur þá starfsemi sem er sinnt. Kjarkur var valinn þar sem einstaklingar sem koma í endurhæfingu þurfa að sýna mikinn kjark til að takast á við breyttar aðstæður sem oft fylgja í kjölfar veikinda eða áfalla.

Fyrir 50 árum flutti fyrsti einstaklingurinn í Hátún 12. Húsið var byggt af Sjálfsbjörg landssambandi hreyfihamlaðra sem er jafnframt stofnandi Kjarks endurhæfingar. Fyrsta skóflustungan var tekin árið 1966 en um var að ræða nýja byggingu í Hátúni 12. Húsnæðið er sérhannað fyrir hreyfihamlaða og frá upphafi hefur verið starfandi endurhæfing og búseta í húsinu.
Hlutverk Kjarks endurhæfingar er að:

„veita þverfaglega einstaklingsmiðaða endurhæfingu fyrir hreyfihamlaða einstaklinga sem glíma við tauga- og heilaskaða“.

Þjónustuþegar sem koma í endurhæfingu eiga að geta tekið þátt í daglegu lífi að aflokinni endurhæfingu. Það má vera í einhverjum tilvikum að þátttakan sé breytt frá því fyrir áfall en takmarkið er að þjónustuþegar taki jafnan þátt og aðrir.
Framtíðarsýnin og takmarkið með endurhæfingunni er að þjónustuþegar geti farið

aftur út í lífið“.

Teymið

Hjá Kjarki endurhæfingu starfar þverfaglegur hópur fagfólks í endurhæfingu með mikla
reynslu af endurhæfingu eftir ákominn heilaskaða og taugasjúkdóma. Áhersla er lögð á
einstaklingsmiðaða þverfaglega teymisvinnu þar sem fagfólk vinnur saman með
þjónustuþega og hans fjölskyldu að því að bæta færni hans og þátttöku í samfélaginu.
Hjá Kjarki starfa félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfar, íþróttafræðingur,
læknir, sjúkraþjálfari og talmeinafræðingur.

Jafnlaunastefna Kjarks endurhæfingar (ýtið hér).

Ábendingum og athugasemdum vegna jafnalaunakerfis má koma á framfæri hér.